Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er alþjóðlegur mannréttindasamningur sem snertir börn. Sáttmálinn felur í sér viðurkenningu á að börn þarfnist sérstakrar verndar umfram fullorðna og á að tryggja börnum vernd gegn ofbeldi, tækifæri og áhrifamátt. Fræðimenn telja að sá réttur barna sem eigi hvað mest undir högg að sækja varði lýðræðisákvæði hans. Meðal annars er algengt að ákvarðanir sem tengjast málefnum barna séu teknar án samráðs við þau. Síaukin áhersla er lögð á réttindi og þátttöku barna en til að tryggja réttindi þeirra í samræmi við sáttmálann er mikilvægt að allir; börn og fullorðnir, þekki til hans. Fyrir árið 2030 eiga öll sveitarfélög hér á landi að hafa hafið markvissa innleiðingu Barnasáttmálans og er ein leið til þess að nýta hugmyndafræði svonefnds réttindaskóla. Samkvæmt rannsóknum getur innleiðing sáttmálans haft jákvæð áhrif á skólastarf í heild sinni og aukið þekkingu barna á réttindum sínum. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á reynslu og þekkingu barna á lýðræðislegri þátttöku og ávinning af fræðslu í skólum um Barnasáttmálann. Tekin voru rýnihópaviðtöl við 43 börn úr 4. og 8. bekk fjögurra skóla á Akureyri og í Eyjafjarðarsveit. Helstu niðurstöður sýna að þátttakendur virðast kunna skil á innihaldi þeirra réttinda sem Barnasáttmálinn veitir og er skilningur þeirra almennt góður. Börn í réttindaskóla höfðu fengið meiri fræðslu sem skilaði sér í auknum skilningi. Þrátt fyrir góða viðleitni í skólastarfi til að auka þátttöku nemenda í ákvörðunum virtist hún í sumum tilfellum einungis fela í sér táknræna þátttöku þeirra. Álykta má að fræðsla sé forsenda þess að innleiðing Barnasáttmálans njóti velgengni og er von okkar að þessi rannsókn stuðli að jákvæðara viðhorfi til skoðana og þátttöku barna.