Velferð og farsæl námsframvinda nemenda hvílir að miklu leyti á herðum grunnskóla og því er mikilvægt að beina sjónum að því hvað þarf til að gera starfsfólki kleift að mæta fjölbreytilegum þörfum þeirra. Hér er sagt frá niðurstöðum rannsóknar á upplifun og reynslu kennara og annars fagfólks af kennslu og stuðningi við nemendur með námserfiðleika í grunnskólum sem hafa verið greindir með ADHD, einhverfu, almenna og sértæka námserfiðleika og tourette-heilkenni, auk nemenda sem glíma við tilfinninga- og félagslega erfiðleika. Rannsóknin er hluti af stærra rannsóknarverkefni um stuðning við grunnskólanemendur með námserfiðleika. Markmið rannsóknar var að kanna reynslu kennara og annars fagfólks af þeim áskorunum sem fylgja kennslu og stuðningi við nemendur með námserfiðleika. Rannsóknin var eigindleg og tekin voru átta rýnihópaviðtöl við fagfólk innan 19 grunnskóla sem sinnir nemendum í 3.–10. bekk. Alls tóku 49 einstaklingar þátt í rannsókninni. Í viðtölunum var leitast við að fá fram álit viðmælenda á helstu áskorunum sem þeir standa frammi fyrir í starfinu, hvað gengi vel og hvað þyrfti að bæta. Niðurstöður sýna að viðmælendur upplifðu ýmsar áskoranir sem fylgdu því að takast á við fjölbreytileikann í nemendahópnum í samræmi við ákvæði laga um nám og velferð nemenda. Auk þess kom fram að skortur er á úrræðum og aðstoð fagfólks með fjölbreytta sérhæfingu innan skóla. Að mati viðmælenda er þó margt vel gert. Í því sambandi kom til dæmis fram að kennurum fannst hafa gefist vel að geta gefið nemendum tækifæri til að blómstra í verklegum greinum með aukinni áherslu á þær greinar í stundatöflu. Þannig fengist hvíld frá bóklegu námi sem þau ættu yfirleitt í erfiðleikum með en þau gætu verið sterk í verklegum greinum, svo sem myndmennt, smíði og nýsköpun. Út frá niðurstöðunum má draga þá ályktun að brýn þörf sé á að bæta faglegan stuðning við starfsfólk skóla vegna nemenda með námserfiðleika