Í þessari grein er sagt frá rannsókn á tveggja ára þróunarverkefni sem fjórir leikskólar í Reykjavík tóku þátt í. Markmiðið með rannsókninni var að greina starfsaðferðir og stuðning starfsfólks við leik sem helstu námsleið barna og við virka þátttöku þeirra í daglegu starfi leikskóla. Verkefnið var liður í innleiðingu á Menntastefnu Reykjavíkurborgar sem studdi við það með styrk úr þróunarsjóði skóla- og frístundasviðs. Rannsakandi við Háskóla Íslands lagði verkefninu lið með fræðslu og ráðgjöf ásamt að safna gögnum og greina þau. Hittust deildarstjórar leikskólanna reglulega til að ræða og kynna sér ýmsar leiðir til að styðja við leik barna og auka þátttöku þeirra í starfi leikskólanna. Rannsóknin byggir á eigindlegri nálgun sem er góð leið til að öðlast innsýn í reynslu fólks og viðhorf. Ýmsum gögnum var safnað í gegnum ferlið, svo sem kynningum og frásögnum þátttakenda á fundum en einnig var þrisvar sinnum sendur út hálfopinn spurningalisti sem fól í sér þarfagreiningu í upphafi verkefnisins, endurmat eftir fyrsta árið og lokamat í lok verkefnisins. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þátttakendur fóru fjölbreyttar leiðir að því að styðja við leik barna og nám. Starfsfólk var oft með börnunum í leik og margvíslegar aðstæður voru nýttar til að styðja við börnin í að leysa verkefni sjálf í stað þess að taka fram fyrir hendurnar á þeim. Þá sýna niðurstöðurnar mörg dæmi um þátttöku barna í daglegu starfi leikskólanna, til dæmis urðu til hlutverk fyrir börnin og barnafundir voru haldnir. Deildarstjórarnir tóku að sér leiðandi hlutverk í að viðhalda hugmyndafræði og gildum leikskólanna með stöðugri fræðslu, umræðu og ígrundun á reglulegum deildarfundum í leikskólunum. Vegna anna gekk þó ekki öllum deildarstjórunum vel að koma upplýsingum og fræðsluefni til samstarfsfólks. Afurðir ferlisins, myndbönd og rafbækur, hafa hagnýtt gildi og auka þekkingu á þeim leiðum sem starfsfólk leikskóla getur farið til að styðja við leik og þátttöku barna í daglegu starfi.