UNICEF telur að fæðingar nærri þriðjungi (35%) barna undir fimm ára aldri hafa aldrei verið skráðar. Fæstar eru skráningarnar í Afríku sunnan Sahara (44%) og Suður Asíu (39%), þaðan sem flest fylgdarlaus börn koma og leita verndar í Evrópu. Mörg þeirra vita ekki um fæðingardag sinn og ferðast án viðeigandi persónuskilríkja. Vegna reglna um réttindi og skyldur einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd, er lagalegur munur á hvort barn eða fullorðinn á í hlut. Því er yfirvöldum innflytjendamála mikilvægt að ganga úr skugga um hvort einstaklingur sé yngri eða eldri en 18 ára.
Flest lönd Evrópu framkvæma réttarlæknisfræðilega aldursgreiningu ef ekki er hægt með hæfilegri vissu á grundvelli annarra tiltækra trúverðugra upplýsinga að meta aldur. Í aðeins tveimur löndum Evrópusambandsins, Bretlandi og Slóveníu, er aldursgreining byggð á viðtölum, án neinnar réttarlæknisfræðilegrar greiningar af neinu tagi. Langflest lönd Evrópu byggja aldursgreiningar á samþættingu tanna- og beinþroska. Öll Norðurlöndin nota þroska tanna til aldurgreininga og öll nota beinþroska. Þau lönd sem nota þroska beina til aldursgreininga nota öll hönd og úlnlið, nema Svíþjóð sem notar hné. Í Danmörku, eitt Norðurlanda, er notað mat á kynþroska við aldursákvörðun. Nokkur ágreiningur hefur verið um aldursgreiningar í Noregi, Svíþjóð og Íslandi. Nokkrar sérfræðigreinar hafa verið kallaðar til að sjá um breytingar til bóta í Noregi og Svíþjóð: tannlækningar, barnalækningar, röntgenfræði, en einnig hefur verið gerð tölfræðilíkön og myndgreining. Þeir sem helst hafa haft sig frammi um hvernig best sé staðið að aldursgreiningu hér á landi hafa ekki komið frá þessum sérfræðigreinum heldur alls óskyldum. Gerður var samningur milli Útlendingastofnunar og Háskóla Íslands sem ekki var endurnýjaður eftir eitt ár þar sem HÍ taldi að ÚTL hefði ekki uppfyllt samninginn.