Í umræðu um skóla og menntun, þar sem gjarnan er tekist á um tæknileg atriði sem snúa að kerfi og skipulagi, skortir iðulega umræðu um raunverulegan tilgang menntunar í samhengi við heiminn og framtíðina. Þetta er ekki síst vandamál nú á dögum, þegar staðið er frammi fyrir alvarlegum ógnum gagnvart samfélagi og náttúru. Ítrekað hefur verið bent á ábyrgð og skyldu menntakerfisins þegar kemur að því að takast á við samfélagslegar breytingar á 21. öldinni en á sama tíma hefur verið bent á togstreitu milli ólíkra hagsmunaafla í ríkjandi orðræðu og stefnumótun í menntakerfinu.Í greininni er birt greining á stefnumótunarskjölum frá OECD og UNESCO. Skjölin voru greind með það að markmiði að varpa ljósi á annars vegar ríkjandi hugmyndir um tilgang menntunar fyrir framtíðina og hins vegar framtíð hverra endurspeglast í skjölunum. Niðurstöður endurspegla ólíka grundvallarsýn stofnananna tveggja, þar sem samfélagslegur tilgangur menntunar, meðal annars til að hlúa að sameiginlegri framtíð náttúru og samfélags á jörðinni, er nokkuð skýr hjá UNESCO. OECDstefnan aftur á móti endurspeglar mun meiri togstreitu milli samfélagslegs og efnahagslegs hlutverks menntunar. Í stefnu OECD, ólíkt stefnu UNESCO, er þögn um þau sem ekki hafa öruggt aðgengi að menntun og búa við brothætt lífsskilyrði.