Fjórðu iðnbyltingunni hafa fylgt miklar tækniframfarir m.a. í formi bjálkakeðja, gervigreindar og stafrænna lausna. Þeim fylgir aukin krafa um innleiðingu bæði vegna samkeppni og skilvirkni. Því fylgja áskoranir fyrir skipulagsheildir sem háðar eru lögmæti og stöðugleika. Stofnanakenningarnar hafa sýnt fram á að skipulagsheildir eru í sífelldri togstreitu á milli skilvirkni og lögmæti, sem verður síst minni þegar ný skoðanakerfi ógna lögmæti ríkjandi skoðanakerfis. Bankar byggja tilveru sína á lögmæti, jafnvel í enn ríkara mæli en skipulagsheildir almennt. Í þessari grein er sjónum beint að íslenskum bönkum og hvernig þeir bregðast við áskorunum stafrænnar byltingar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort ríkjandi skoðanakerfi hamli tækniþróun innan bankakerfisins á Íslandi. Eigindleg aðferðafræði var notuð og voru hálfstöðluð viðtöl tekin við 11 einstaklinga frá fimm bönkum, bæði eldri hefðbundnum bönkum og nýrri sem styðjast meira við stafrænar lausnir. Viðmælendur voru valdir með tilgangsúrtaki og komu hvoru tveggja frá viðskipta og upplýsingatækni sviðum bankanna. Gögnin voru greind með aðferðum grundaðrar kenningar. Niðurstöður leiddu í ljós að ríkjandi skoðanakerfi hafa hamlandi áhrif á tækniþróun innan bankakerfisins. Banka skoðanakerfið, stutt upplýsingatækni skoðanakerfinu, rekst á við hið nýja stafræna skoðanakerfi, en áhersla fyrrnefndu skoðanakerfanna á stöðugleika og lögmæti dregur úr möguleikum á að tileinka sér nýja tækni hratt og örugglega. Eldri bankar standa einnig frammi fyrir áskorunum vegna hamlandi eldri upplýsingatæknikerfa. Á meðan nýrri bankar aðgreina sig með stafrænni nálgun verða einnig fyrir þrýstingi að aðlagast hefðbundnara banka skoðanakerfi. Rannsóknin varpar ljósi á flókið samspil skoðanakerfa, einsleitnikrafta og lögmætis í tækniþróun banka. Mikilvægt er fyrir banka að vera meðvitaðir um þessar hindranir og leita leiða til að samþætta ólík skoðanakerfi, með þeim hætti að innleiðing nýrrar tækni leiði ekki til ágjafar á lögmæti. Frekari rannsóknir eru nauðsynlegar til að öðlast dýpri skilning á myndun og viðhaldi lögmætis innan bankakerfisins í takt við tæknibreytingar.