Í stefnumótun stjórnvalda á sviði kynjajafnréttismála lögreglu er lögð áhersla á að fjölga konum meðal lögreglumanna og í áhrifa- og stjórnunarstöðum lögreglumanna. Til að ná settum markmiðum hefur sjónum verið beint að fjölgun kvenna meðal lögreglunema en lítt verið hugað að brotthvarfi kvenna og neikvæðum þáttum í karllægri vinnumenningar lögreglunnar. Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvernig stjórnvöldum miðar að því að ná settum markmiðum og greina möguleg áhrif kynbundinnar áreitni á þessi markmið, en slík áreitni hefur fengið litla athygli í rannsóknum. Rannsóknin byggir á tölulegum gögnum frá lögreglunni og spurningalistakönnun sem lögð var fyrir allt starfsfólk lögreglu árið 2022. Niðurstöðurnar sýna að þrátt fyrir að konum hafi fjölgað meðal lögreglumanna síðastliðin ár þá hefur konum ekki fjölgað í áhrifa- og stjórnunarstöðum líkt og miðað var að. Auk þess er óvíst hvort að markmiðið um fjölgun kvenna náist, en kynjabilið hefur aukist í lögreglunáminu og vísbendingar eru um óeðlilegt brotthvarf meðal kvenna. Stór hluti kvenna verður fyrir kynbundinni áreitni í starfi sínu og þá oftast af hendi karlkyns samstarfsmanna og karlkyns yfirmanna. Því drögum við þá ályktun að vinnumenning lögreglu grafi undan markmiðum stjórnvalda, því á sama tíma og áhersla stjórnvalda er að fjölga konum í lögreglunni að þá er umhverfið sem bíður þeirra til þess fallið að ýta þeim út aftur. Til að vinna gegn þessu þurfa stjórnvöld að bregðist við með aðgerðum sem stuðla að inngildandi starfsumhverfi fyrir allt starfsfólk lögreglu.