Stefna sem byggir á hugmyndafræði um inngildandi menntun eða skóla án aðgreiningar tekur til allra skólastiga en var fyrst lögfest með grunnskólalögum árið 2008. Inntak stefnunnar snýst um að mæta náms- og félagslegum þörfum nemenda í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Þrátt fyrir að mannréttindanálgun stefnunnar sé almennt viðurkennd þá hefur reynst erfitt að innleiða hana með árangursríkum hætti, ekki síst á framhaldsskólastiginu þar sem menntun nemenda með þroskahömlun fer enn fram í sérúrræðum innan skólanna. Með tilkomu laga um farsæld barna til 18 ára aldurs og áherslu á snemmtækan stuðning má ætla að gera þurfi róttækar breytingar á kerfinu þar sem nú á að draga úr áherslu á greiningu sem forsendu fyrir stuðningi við nemendur og stuðla að jöfnuði meðal nemenda. Markmið greinarinnar er að varpa ljósi á áskoranir varðandi útfærslu inngildandi menntunar og stuðning við nemendur með þroskahömlun í framhaldsskóla og um leið benda á tækifæri til breytinga. Rannsóknarspurningin var: Hvaða áskoranir og tækifæri má greina varðandi skipulag náms og stuðnings fyrir nemendur með þroskahömlun á framhaldsskólastigi með hliðsjón af kenningum um inngildandi menntun og félagslegt réttlæti? Gögnin spanna viðtöl við yfirmenn starfsbrauta, foreldra og nemendur auk þess sem opinber gögn er snúa að menntun á framhaldsskólastigi voru greind. Niðurstöður benda til þess að nemendur með þroskahömlun séu ekki fullgildir þátttakendur í skólasamfélaginu og að stærstu áskoranirnar felist í skilgreiningu á hugtakinu stuðningur með hliðsjón af áherslum inngildandi menntunar sem og skipulagi stuðnings við nemendur með þroskahömlun í formi aðgreindra úrræða. Þá stuðlar hið marglaga stuðningskerfi að frekari ójöfnuði meðal nemenda þar sem úthlutun stuðnings tekur mið af greiningum. Tækifærin til breytinga felast ekki síst í nýjum áherslum varðandi farsæld barna. Boðaðar eru breytingar á lögum varðandi stuðning við nemendur og út frá niðurstöðum má álykta að mikilvægt sé að sameiginlegur skilningur ríki um inntak þeirra hugtaka sem fram koma og snúa að stuðningi.